Print

Brúðkaupssiðir og hjátrú

Nú til dags er það venjan að fólk gifti sig á laugardegi, en áður fyrr var sá dagur ekki talinn boða gott. Föstudagar þóttu einnig slæmir til giftingar, sérstaklega föstudagurinn þrettándi. Hins vegar þóttu miðvikudagar einstaklega góðir dagar til giftingar!

Alls kyns hjátrúr eru tengdar brúðarkjólnum. Þekktust er líklegast sú að ekki þyki boða gott sjái brúðguminn brúðina í kjólnum áður en kemur að sjálfri athöfninni. Þá þykir það einnig boða ógæfu saumi brúðurin sjálf kjólinn sinn. Þá er og talað um að ekki skuli brúðurinn hafa verið í öllum brúðarskrúðanum fyrr en kemur að stóra deginum. Því er oft beðið með að taka síðustu saumasporin þar til komið er að athöfninni.

Slör brúðarinnar var upphaflega notað af rómverjum og var það hugsað sem vörn gegn illum öndum. Slörið átti að fela brúðina og þannig leika á hina illu anda. Slörið varð síðan vinsælt í Bretlandi á nítjándu öld og var þar tengt við hógværð og hreinlífi.

Blóm hafa alla tíð verið notuð til skreytingar í brúðkaupum. Oft á tíðum ber brúðguminn einnig blóm, sem hægt er að finna í brúðarvendinum, í hnappagatinu. Eru þetta menjar frá þeim tímum er riddararnir klæddust litum konu sinnar til sýna ást sína til hennar. Áður fyrr voru blóm hins vegar notuð með það fyrir augum að sterk lyktin af þeim myndi hrekja í burtu illa anda, óheppni og slæma heilsu.

Ýmsar hjátrúr eru tengdar ferð brúðarinnar til athafnarinnar. Til dæmis er sagt að líti brúðurin í spegil á leið sinni út úr húsi og til athafnarinnar, færi það henni mikla lukku. Ef hún hins vegar snýr við til að líta í spegilinn eftir að hún er lögð af stað er talið að færa henni ógæfu. Slæmt veður á leið til giftingar talið vera fyrirboði um óhamingjusamt hjónaband, þó er rigning reyndar sums staðar talinn góður fyrirboði. Sé skýjað úti og vindur er það talið endurspeglast í hjónabandinu og það verða stormasamt. Snjór er hins vegar tengdur við frjósemi og ríkidæmi.

Hrísgrjónum er oft á tíðum kastað yfir brúðhjónin á leið þeirra út úr kirkjunni. Er þetta gert til að veita þeim velsæld og frjósemi.

Í gegnum tíðina hafa ýmsir siðir tengdir skóm verið taldir færa gæfu. Best þekkti siðurinn, og sá sem enn er sums staðar hafður í heiðri, er að binda skó aftan í bíl nýgiftra hjóna. Þessi siður er kominn af öðrum sið sem gerði ráð fyrir því að gestir hentu skóm í nýgifta parið. Þótti það vera ávísum á mikla gæfu ef einhver gestanna hitti parið eða vagninn þeirra. Minna þekktur siður er að faðir brúðarinnar færi brúðgumanum skópar í eigu brúðarinnar sem tákn um að nú beri hann ábyrgð á dóttur hans.

Siður sá að brúðin kasti brúðarvendinum aftur fyrir sig var upprunalega framkvæmdur þannig að brúðurinn kastaði skónum sínum yfir axlirnar. Nú fer þetta þannig fram að ókvæntar konur í brúðkaupsveislunni safnast saman og brúðurin kastar til þeirra brúðarvendinum. Sagt er að sú þeirra sem grípi vöndinn verði næst upp að altarinu. Svipaður siður er til fyrir karlpeninginn, en hann er þannig að brúðguminn kastar aftur fyrir sig sokkabandi brúðarinnar til ókvæntra karlmanna í veislunni og sá þeirra sem grípur það er næstur til að gifta sig.

Sið þann, að brúðurin standi til vinstri og brúðguminn til hægri, má rekja aftur til þeirra tíma er menn náðu sér í eiginkonur með því að stela þeim. Ef brúðguminn þurfti að berjast við aðra menn sem vildu hana sem brúði sína, hélt hann brúði sinni með vinstri hendinni svo hann gæti notað hægri höndina til að berjast með sverði sínu.

Flestir hafa heyrt eftirfarandi vísu: 
Something old, something new 
Something borrowed, something blue 
And a silver sixpence in your shoe 

Sem útleggst einhvern vegin svona á íslensku: 
Eitthvað gamalt, eitthvað nýtt 
Eitthvað lánað, eitthvað blátt 
Og silfurpeningur í þínum skó 

Er það vel útbreiddur siður að brúðurin taki með sér ákveðna hluti til athafnarinnar sem vitna til vísunnar 
Eitthvað gamalt táknar fortíð brúðarinnar og tengsl hennar við fjölskyldu sína. Venjulega ber brúðurin einhvern gamlan skartgrip úr ættinni eða klæðist jafnvel brúðarkjól móður sinnar eða ömmu. 
Eitthvað nýtt er tákn um bjarta framtíð og velgengni í hjónabandinu. Ef brúðarkjóll er keyptur nýr er venjulega notast við hann, en annars má notast við eitthvað annað úr brúðarskrúðanum, skóna undirfötin eða hvað sem er. Eitthvað lánað á að færa brúðinni gæfu og minna hana á að fjölskylda og vinir verða alltaf til staðar þegar á þarf að halda. Venjulega er þetta hluti af brúðarskrúðanum, skartgripur eða jafnvel vasaklútur. 
Eitthvað blátt stendur fyrir tryggð og er komið frá tímum biblíunnar þegar blátt táknaði hollustu og hreinleika. Venjan nú til dags er að brúðurin beri blátt sokkaband. 
Silfurpeningur í skónum á færa brúðinni mikinn auð, bæði fjáhagslegan, en ekki síður hamingjuauð og ánægju í hjónabandinu.


Gull og Silfur ehf.
Skartgripaverslun og verkstæði

Laugavegi 52
101 Reykjavík
Sími: 552-0620
Fax: 552-9130

www.gullogsilfur.is
gullogsilfur@gullogsilfur.is