Print

Gullblöndur

Til forna notuðu listamenn gullið næstum alltaf hreint til framleiðslu skartgripa, þótt þeir vissu hvernig ætti að blanda það öðrum málmum. Það var vegna þess að því hreinna sem það var, þeim mun sveigjanlegra og meðfærilegra. Þegar silfri er blandað saman við það, lækkar bræðslumark málmblöndunnar í réttu hlutfalli við aukið silfurmagn.

Hægt er að blanda silfri og eir saman við gull, bæði í föstu og fljótandi formi, í öllum hlutföllum, en ef hlutfall eirs verður hærra en 18%, verður gullið stökkt og vandunnið. Því meira sem notað er hlutfallslega af eir í gullblendið, þeim mun rauðara verður gullið.

Allar gullblöndur minnka sveigjanleika gullsins (stæla það sem kallað er og auka viðnám þess gegn sliti). Þannig styrkist stundum varanleiki gullmuna á kostnað fínvinnu. Við smíði gullmuna er nauðsynlegt að mýkja þá upp með hitun (afglóða þá) við og við, svo gullið verði ekki of hart go stökkt, en þegar gull er hamrað, beygt, sveigt og teygt, stökknar það jafnharðan.

Mæling gulls er karat, 24/24, sem hlutfallsmagn hreins gulls í málmblöndunni. Algengustu hlutfallstölur í skartgripagerð eru:

916/1000 = 22 karöt 
833/1000 = 20 karöt 
750/1000 = 18 karöt 
585/1000 = 14 karöt 
500/1000 = 12 karöt 
375/1000 = 9 karöt 
333/1000 = 8 Karöt

Fremsta talan er stimpluð á skartgripinn og segir til um hvernig gullblendi er notað. Í 14 karata gullhring er t.d. talan 585 stimpluð inn í.

 

Fróðleikur um demanta

Orðið demantur er komið af gríska orðinu ,,adamas" sem merkir hinn ósigrandi, og því er demantur í skartgrip tákn um sterka og varanlega ást hvers vegna eru demantar svona verðmætir? Það er vegna þess hversu sjaldgæfir þeir eru. Demantskristallinn myndast úr hreinu kolefni við mikinn hita og þrýsting djúpt undir yfirborði jarðarinnar. Demantarnir koma svo uppá yfirborðið í eldgosum og eru unnir úr grýtinu. Úr 250 tonnum af málmgrýti næst einungis um eitt karat af demöntum, og af öllum þeim demöntum sem finnast er einungis fjórðungur þeirra nothæfur í skartgripi. Það er áætlað að hingað til hafi einungis 500 tonn af demöntum fundist. Þegar demanturinn hefur fundist á hann langa leið fyrir höndum og áður en hann endar um háls eða á fingri einhvers hafa hundruðir manna í mismunandi löndum lagt fram kunáttu sína og færni til þess að ná því besta út úr hverjum demanti.

Gæðamat og þar með verðlagning á skartdemöntum er fólgið í mælikvarðanum c-in fjögur, sem dreginn er af ensku orðunum carat(rúmtak/þyngd), colour(litur), clarity(hreinleiki) og cut(slípun). Flokkun demanta eftir gæðum mótast af þessum fjórum þáttum.

Þyngd demantsins er það sem helst stjórnar verði hans. Carat er mælieinigin sem notuð er til að mæla þyngd demanta og flestra annara eðalsteina. Það er mjög mikilvægt að tengja caratþyngd demanta ekki við þvermál þeirra, heldur við allan demantinn og rúmtak hans. En hve þungt er eiginlega eitt carat? 1 carat = 200 = milligröm = 100 punktar. Það er mjög algengt að fólk vilji fá sem stærstan demant fyrir þann pening sem það hefur til umráða. Þrátt fyrir að stærðin skipti án efa miklu þá skiptir gæði steinsins ekki minna máli. Að lokum eru hér nokkur dæmi um þvermál algengra stærða á demöntum: 
0,25 ct = 4,1 mm 
0,5 ct = 5,2 mm 
0,75 ct = 5,9 mm 
1,00 ct = 6,5 mm

Litur demantsins hefur næst mest áhrif á verð hans. Þegar talað er um lit demants er í raun átt við litleysi hans, því litlausari sem steininn er því sjaldgæfari og verðmætari er hann. Í augum leikmanns geta margir demantar virst litlausir en flestir þeirra hafa á sér slikju af gulum og brúnum. Þó er einnig að finna litaða demanta, (fancy coloured) rauða, bleika, bláa, græna og gula og eru litaðir demantar enn sjaldgæfari en þeir litlausu.

Hreinleiki demantsins vísar til þess hversu tær eða hreinn hann er eða hvort hann innihaldi einhverjar agnir . Flestir demantar innihalda einhverjar agnir og eru þeir svo flokkaðir eftir því hversu stórar þessar agnir eru. Í öllum tilfellum er miðað við að demanturinn sé skoðaður við tífalda (10x) stækkun.

Með slípun demantsins er ekki einungis verið að tala um lagið á honum, eins og kringlóttan, perulaga, sporöskjulaga, marquise o.s.frv., heldur ekki síður hlutföll og áferð, sem eru þættir sem hafa áhrif á glampann sem demanturinn gefur frá sér. Vel slípaður demantur hleypir ljósinu inn að ofan, leyfir því að endurkastast inní sér á réttum stöðum og svo út aftur að ofan. Vel slípaður demantur á að glampa eins og inní honum sé lifandi eldur, en illa slípaður demantur getur virkað flatur og líflaus.

Það er því ljóst að margs ber að gæta að við kaup á demöntum. Gull & Silfur er kröfuharður kaupandi demanta til notkunar í skartgripi og fær alla sína demanta frá helstu demantavinnslum Evrópu, þar sem gæðakröfurnar eru mestar. Oft treystir folk um of á erlenda skartgripasala við kaup á dýrum demantsmunum, sem síðan reynast lélegir að gæðum og verðminni efni standa til skoðunar hér heima, Sérþekking og það að demantar eru tollfrjáls vara á Íslandi, gera það að verkum að Gull & Silfur getur boðið gæðademanta á sambærilegu verði og best gerist erlendis.


Gull og Silfur ehf.
Skartgripaverslun og verkstæði

Laugavegi 52
101 Reykjavík
Sími: 552-0620
Fax: 552-9130

www.gullogsilfur.is
gullogsilfur@gullogsilfur.is